Miðvikudaginn 12. febrúar, á sjálfan öskudaginn, hélt Unnur Pálmarsdóttir fyrirlestur um heilsu og vellíðan í lífi og starfi fyrir starfsfólk Prentmets. Unnur er Íslandsmeistari og kennari í þolfimi og eigandi fyrirtækisins Fusion sem stendur á bak við heilsuhátíðina Fusion Fitness Festival. Starfsfólkið ákvað þennan dag að fara úr sínu venjulega hlutverki og mæta í búningum. Unnur lagði áherslu á að við settum heilsuna í fyrsta sæti og hún skipti öllu máli og mikilvægt væri að hlúa að henni. Við þyrftum að vera sátt við okkur sjálf. Þegar við erum sátt við lífið og tilveruna, þá virðast allar dyr opnar og möguleikar lífsins verða endalausir! Göngum um dyr lífsins og njótum þess að vera til og lifa heilbrigðu og hraustu lífi. Þegar okkur líður betur á líkama og sál, þá verða allir hlutir auðveldari. Samskipti okkar við fjölskylduna verða betri og lífið leikur við okkur. Hún gaf starfsfólkinu góð ráð varðandi æfingar og mataræði. Hún mælti með því að allir lyftu lóðum reglulega. Hún mælti einnig með því að gönguhópur Prentmets héldi áfram og virkjaði ennþá fleiri í göngu. Henni fannst alveg frábært að sjá hvað liðsheildin var sterk í fyrirtækinu og gaman að sjá fólkið fara í búninga á öskudaginn. Fyrirlesturinn endaði á fjörugum dansæfingum.
Fyrirlesturinn hjá Unni var ákaflega skemmtilegur og hvetjandi og ýtti undir ennþá betri liðsheild í fyrirtækinu.