Einstök ljósmyndabók Jónatans Grétarssonar er prentuð hjá Prentmeti og Salka forlag gefur bókina út.
Ljósmyndabókin felur í sér mannlýsingar og hefur að geyma 192 ljósmyndir af íslenskum listamönnum. Guðmundur Andri Thorsson skrifar texta við myndirnar og undirstrikar hina
einstöku stemmingu sem bókin býr yfir.
Guðmundur Oddur Magnússon skrifar formála þar sem hann líkir Jónatan við Andy Warhol og segir meðal annars: „Bein, hörð birta Jónatans afmarkar fyrirmyndina og togar í hana þannig að hún virðist koma á móti áhorfandanum. Drungaleg lýsing – ekkert bros, litir fölnaðir, eftirsjá og fortíðarhyggja. /…/ Þessi skráningaraðferð Jónatans er á háu stigi og nærveran slík að áhorfandinn er tekinn í ferðalag og freistast til að fara á bak við spegilinn, inn í heim hins veruleikans sem er uppfullur af táknum, íkonum sem hafa fest á hvolfi hins innra heims. Það er ekki hægðarleikur að snúa til baka svo sterk er upplifunin. Hugurinn hefur nefnilega hálfa sjónina.“