Það er stefna Prentmets Odda að starfsmenn sýni samstarfsfólki sínu alltaf kurteisi og virðingu í sam­skiptum. Einelti og kynferðisleg áreitni verður undir engum kringumstæðum umborin á vinnu­staðnum. Meðvirkni starfsmanna í einelti er fordæmd. Vinna gegn einelti og að bættum brag er hluti starfsmannastefnu fyrirtækisins.

Samkvæmt starfsmannastefnu fyrirtækisins er m.a. stuðlað að:

  • öryggi, virðingu og trausti meðal starfsmanna
  • góðri samvinnu milli starfsfólk og góðum vinnuanda
  • starfsfólk vinni sem ein góð liðsheild
  • starfsfólk vinni vel og því líði vel
  • góðri vinnuaðstöðu
  • jafnréttis sé gætt

Skilgreining fyrirtækisins á hvað einelti og kynferðisleg áreitni er styðst við reglugerð nr. 1000/2004 en þar segir í 3. gr.:

Einelti: Ámælisverð og síendurtekin ótilhlýðileg háttsemi, þ.e. athöfn eða hegðun sem er til þess fallin að niðurlægja, gera lítið úr, móðga, særa, mismuna eða ógna og valda vanlíðan hjá þeim sem hún beinist að. Kynferðisleg áreitni og annað andlegt eða líkamlegt ofbeldi fellur hér undir. Góðlátlegt grín meðal jafningja telst ekki einelti.

Birtingarmyndir eineltis geta verið margs konar, t.d.:

Umtal

  • Baknaga þolandann og hæðast að honum.
  • Skapa múgæsingu gegn þolanda.

Virðing

  • Að starf, hæfni og verk þolandans séu lítilsvirt.
  • Móðgandi símtöl, lítilsvirðandi texti í tölvupósti eða öðrum skriflegum sendingum.
  • Óþægileg stríðni, niðurlæging eða auðmýking, t.d. vegna aldurs, kynferðis eða þjóðernis.

Hunsun

  • Særandi athugasemdir, rógur eða útilokun frá félagslegum og faglegum samskiptum.
  • Fjandskapur eða þögn þegar spurt er eða fitjað upp á samtali.

Framkoma

  • Misnotkun, t.d. með því að neyða þolandann til að sinna endurtekið erindum sem falla ekki undir starfsvið hans eða að láta hann hafa of fá/of mörg verkefni.
  • Árásir á þolandann eða gagnrýni á einkalíf hans, skamma þolandann/gera hann að athlægi.
  • Að draga að ástæðulausu úr ábyrgð/verkefnum og gefa ekki nauðsynlegar upplýsingar.
  • Líkamlegar árásir eða hótanir um slíkt.