Ýma tröllastelpa
Ýma tröllastelpa var sköpuð árið 2001 og makmiðið með henni er að gera eitthvað gott í þágu barna samfélaginu til heilla. Höfundur bókarinnar er Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir framkvæmdastjóri starfsmanna- og markaðssviðs, en hún og eiginmaður hennar, Guðmundur Ragnar Guðmundsson framkvæmdastjóri eru eigendur Prentmets.
Ýma er forvarnarverkefni um einelti fyrir fyrstu þrjá bekki grunnskóla. Verkefnið er hannað og framleitt af Prentmet en unnið í samstarfi við Regnbogabörn. Ýma er fyrirmmynd barna í félagslegum og tilfinningalegum þroska og einnig ýtir hún undir jafnrétti kynjanna og virðingu barna fyrir náttúrunni. Námsgagnastofnun sér um dreifingu á bókinni. Tilgangurinn er fyrst og fremst sá að vekja börnin til umhugsunar um hve mikilvægt það er að allir fái tækifæri til að vera það sem þeir vilja vera og hvetja þau til að þora að vera þau sjálf.
Ýma tröllastelpa hefur á undanförnum árum orðið einskonar tákngervingur fyrir markmið Regnbogabarna. Hún fer aðeins framá að vera hún sjálf sama hvað aðrir segja um hana. Regnbogabörn og Prentmet sjá til þess að hvert einasta 6 ára skólabarn á landinu og kennarar fái þessa bók afhenta í byrjun hvers skólaárs.
Í bókinni eru kennsluleiðbeiningar og ráðleggingar til foreldra og kennara. Efnið er tilvalið fyrir fyrstu þrjá bekki grunnskóla í faginu lífsleikni. Aðalpersónan er Ýma, stór og klunnaleg tröllastelpa. Hún hefur látið ljós sitt skína í skólum landsins hjá yngsta stigi, því árin 2001 og 2002 stóð Prentmet fyrir umferðarátaki með Umferðarráði og Ríkislögreglustjóra og gaf út litabók um Ýmu, þar sem hún lærði umferðarreglurnar. Þá koma Ýma , sem Ólafía Hrönn lék, reglulega í þættina ,,Hjá afa” á stöð 2 veturinn 2002-2003.
Ýma hefur nú lært umferðarreglurnar og er farin að komast í skólann án þess að vera í mikilli hættu. Að þessu sinni tekst Ýma á við einelti. Hún lærir að bregðast rétt við og hjálpa öðrum. Hún horfir á regnbogann og spyr sjálfa sig: „Fyrst allir litirnir í regnboganum geta verið saman, hvers vegna geta þá ekki öll börnin verið vinir?“ Við erum öll sérstök, hvert á sinn hátt. Öll börn eiga rétt á því að fá að líða vel í skólanum svo þau geti lært og þroskast eðlilega. Þetta verkefni er orðið kunnugt fjórum yngstu árgöngum grunnskólans því að haustið 2003 fengu öll 6, 7 og 8 ára börn í grunnskóla þetta verkefni að gjöf frá Prentmeti og árin 2004 til 2007 öll 6 ára börn. Haldnar hafa verið leiksýningar um Ýmu í skólum landsins frá 2003, þar sem Ólafía Hrönn leikur Ýmu og Halldóra Geirharðsdóttir er í aukahlutverkum.
Markmiðið með þessu verkefni er að draga úr einelti og ofbeldi á börnum með aukinni fræðslu til skólabarna með þátttöku foreldra og kennara. Börnin lita myndirnar í bókinni og foreldrar og kennarar lesa textann með þeim.
Öll hugmyndavinna, hönnun og prentun er unnin og gefin af Prentmet ehf. Með því vill fyrirtækið leggja sitt af mörkum til þess að draga úr því ofbeldi sem einelti er. Ýma hefur það hlutverk að gera eitthvað gott fyrir börnin og vera samfélaginu til heilla.
Myndirnar eru teiknaðar af teiknimyndastúdíóinu Iceland Animations.