Litabókin „Ýma tröllastelpa – Ég vil fá að vera ég sjálf˝ er forvarnarverkefni um einelti fyrir fyrstu þrjá bekki grunnskóla. Námsgagnastofnun sér um dreifingu á bókinni og mun hún koma í skólana næstu daga.
Regnbogabörn og Prentmet standa fyrir þessu átaki og hafa einsett sér að sjá til þess að hvert einasta 6, 7 og 8 ára barn fái þessa bók afhenda í byrjun skólaársins 2003. Með bókinni fylgja kennsluleiðbeiningar og ráðleggingar til foreldra og kennara. Efnið er tilvalið til þess að nota í faginu lífsleikni.
Ýma er stór og klunnaleg tröllastelpa sem þarf að komast heilu og höldnu í skólann. Ýma hefur látið ljós sitt skína í skólum landsins hjá 6 ára börnum áður, því árin 2001 og 2002 stóð Prentmet fyrir umferðarátaki með Umferðarráði og Ríkislögreglustjóra.
Í þessu verkefni hefur Ýma lært umferðarreglurnar og er farin að komast í skólann án þess að vera í stórri hættu. En nú lætur hún eineltið til sín taka. Ýma lærir að bregðast rétt við því og hjálpa öðrum. Hún horfir á regnbogann og spyr sjálfa sig: Fyrst allir litirnir í regnboganum geta verið saman hvers vegna geta þá ekki öll börnin verið vinir. Við erum öll sérstök, hvert á sinn hátt. Öll börn eiga rétt á því að fá að líða vel í skólanum svo þau geti lært og þroskast eðlilega.
Börnin lita og foreldrar og kennarar lesa textann með börnunum. Markmiðið með þessu verkefni er að draga úr einelti og ofbeldi á börnum með aukinni fræðslu til barna og með þátttöku foreldra og kennara.
Öll hugmyndavinna, hönnun og prentun er unnin og gefin af Prentmet ehf. Sem með því vill leggja sitt af mörkum til þess að draga úr því ofbeldi sem einelti er. Ýma hefur það hlutverk að gera eitthvað gott fyrir börnin og vera samfélaginu til heilla. Myndirnar eru teiknaðar af teiknimyndastudoinu Iceland Animations og höfundur bókarinnar er Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir.
Leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir hefur leikið Ýmu og hefur tekið saman 30 mínútna leikþátt um þetta efni. Það er Halldóra Geirharðsdóttir leikur aukahlutverkin. Leiksýningin er bæði skemmtun fyrir börnin og hefur mikið forvarnagildi fyrir þau. Skólar sem hafa áhuga á þessari leiksýningu er bent á að hafa samband við samtökin Regnbogabörn í síma 555 0862 .
Okkar ósk er að efnið komist vel til skila þannig að það megi þjóna sem best tilgangi sínum og sameiginlegum hagsmunum allra.