Starfsmenn Prentmets mættu í gulu í vinnuna í dag eða páskalegum klæðnaði í tilefni þess að nú styttist óðum í páskana. Allir fengu lítið páskaegg með málshætti og stærra egg til þess að fara með heim og opna á páskunum með sérmerktum toppi frá fyrirtækinu. Þetta er orðinn fastur liður hjá okkur hér í Prentmeti.
Um skemmtilega tilbreytingu er að ræða til þess að brjóta upp daginn og efla vinnuandann enn frekar. Að sjálfsögðu prentar Prentmet all flesta málshættina fyrir sælgætisgerðirnar inn í páskaeggin og sér um toppa og umbúðir utan um flest eggin. Það eru alltaf að koma fleiri nýjungar í umbúðum, eins og páskaegg í fallegum öskjum sem Prentmet sér um að hanna og prenta.
Eins og alþjóð veit heldur kirkjan páska hátíðlega til þess að fagna upprisu Jesú Krists frá dauðum. Þess vegna eru páskarnir gleði- og sigurhátíð og eru þeir raunar elsta hátíð kristninnar. Af þeim sökum kölluðu kirkjufeðurnir páskana hátíð hátíðanna.
Hér fyrir neðan má sjá nokkrar myndir af gula þemanu hjá Prentmeti og nokkra af þeim málsháttum sem komu úr eggjum starfsmanna og páskagáta. Svar við henni er á prentmet.is
Elskan dregur elsku að sér
Ekki eru allir viðhlægjendur vinir
Það verður að segja svo hverja sögu sem hún gengur
Augað er spegill sálarinnar
Í geitarhúsi þarf ei ullar að leita
Að hika er sama og tapa
Svo uppsker hver sem sáir (úr Biblíunni)
Í myrkri eru allir kettir eins á lit
Það er til lítils að hlaupa ef stefnt er í ranga átt
Að leyna fundi er að líkjast þjófi
Páskagátan 2012
Í það ganga karl og kona.
Kærleiksþel sem vinir treysta.
Félög tengjast saman svona.
Í sokka best og ullarleista.