Það er venja að veita starfsviðurkenningar á árshátíðum hjá Prentmeti. Í ár fengu alls níu manns starfsviðurkenningar, en þær voru veittar á árshátíð starfsmannafélagsins sem haldin var í Viðey laugardagskvöldið 27. febrúar sl. Forsvarsmenn og eigendur Prentmets, Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir og Guðmundur Ragnar Guðmundsson, afhentu verðlaunin og eru þau mjög þakklát því trausta og góða fagfólki sem búið að vera með þeim í gegnum árin.

Þessir hafa starfað hjá fyrirtækinu samfellt í 10 ár (frá árinu 2000) í höfuðstöðvunum í Reykjavík:
– Bragi Guðmundsson deildarstjóri í stafrænni prentdeild
– Einar Óli Einarsson skurðarmaður
– Ísleifur Jakobsson offsetprentari
– Jóhanna Jóna Gunnlaugsdóttir bókari
– Reynir Þór Viðarsson lagerstjóri

Sævar Haraldsson prentari fékk viðurkenningu og verðlaun fyrir 30 ára starfsafmæli, þar sem hann hóf störf hjá Fjölritunarstofu Daníels Halldórssonar árið 1980 þá 30 ára gamall, en Prentmet tók við því fyrirtæki árið 2001.

Tveir fengu viðurkenningar og verðlaun fyrir 40 ára starf hjá Prentmeti Vesturlands á Akranesi.
Það voru Sigurvin Sigurjónsson offsetprentari og Þórður Elíasson prentsmiðjustjóri, sem hófu báðir störf hjá Prentverki Akraness árið 1970. Prentmet keypti Prentverk Akraness í desember árið 2000 og heitir það nú Prentmet Vesturlands.

Í Prentmeti Suðurlands á Selfossi fékk Kjartan Már Hjálmarsson prentsmiður viðurkenningu og verðlaun fyrir 10 ára starfsaldur. Prentmet keypti Prentsmiðju Suðurlands árið 2006 og hélt Kjartan áfram störfum sem prentsmiður hjá fyrirtækinu.

Hjá Prentmeti er öflugur og traustur hópur úrvals fagfólks sem vinnur sem ein öflug liðsheild við að uppfylla þarfir og væntingar viðskiptavina sinna. Það er markmið fyrirtækisins að veita starfsaldursviðurkenningar á áratugum.