Þórður Elíasson, prentsmiðjustjóri Prentmets Odda á Akranesi lætur nú af störfum eftir fimmtíu farsæl ár í prentiðninni. Þórður hóf sinn feril árið 1970 í prentiðnaðinum þegar hann fór á samning hjá Prentverki Akraness þann 1. september það ár. Hvað varð til þess að þú valdir prentiðnina fram yfir annað? „Það var eiginlega tilviljun. Ég var búinn með tvo vetur í iðnskólanum og komst ekki lengra nema hafa samning, en ég hafði alltaf ætlað mér að verða iðnaðarmaður. Ég sá svo auglýst eftir nema í setningu hjá Prentverki Akraness, sótti um og var ráðinn sem var mikið gæfuspor fyrir mig,“ segir Þórður. Alls hefur Þórður unnið rúm fimmtíu ár í greininni, fyrst hjá Prentverki Akraness en svo hjá Prentmeti Odda eftir að eigendur þess eignuðust fyrirtækið um aldamótin.

Mikil þróun í faginu á þessum árum

Þegar við ræðum við Þórð um breytingar sem orðið hafa í faginu segir Þórður: „Það hafa orðið miklar breytingar og mikil þróun, allt frá því að setja og brjóta um í blýi og yfir í að vinna þetta á tölvu. Flestar þessar breytingar eru af hinu góða þótt auðvitað sé alltaf eftirsjá í góðu handverki.“ Við spyrjum Þórð því næst hvaða verkefni það eru sem helst standa upp úr þegar hann horfir yfir farinn veg. „Það sem kemur fyrst upp í hugann er setning og umbrot á Æviskrám Akurnesinga og Borgfirskum æviskrám. Það var mikil vinna. Allt var sett í blýi og brotið um í höndunum. Myndir voru búnar til á zinkplötur og þeim síðan komið fyrir á réttum stöðum í textanum. Á síðustu árum stendur vinnan við útgáfa Póstsins upp úr. Fjölbreytileikinn í starfinu er óneitanlega skemmtilegur og svo hef ég haft mikla ánægju af samskiptum við fólk. Fjölbreytileiki og samskipti gefa lífinu lit.“

Næg verkefni framundan

Þórður segir að það leggist ágætlega í sig að hætta að vinna. „Það leggst bara ágætlega í mig. Ég er heilsuhraustur og hlakka til að ráða tímanum mínum sjálfur. Það eru forréttindi að fá að eldast.“ Aðspurður um hvað hann ætli að taka sér fyrir hendur liggur ekki á svörum. „Við hjónin fluttum í nýtt hús í lok síðasta árs og þar bíða mín ýmis konar verkefni, svo sem að smíða pall og skjólveggi. Kannski rifjar maður upp gamla takta við prjón og útsaum. Það er eitthvað til af garni á heimilinu! En þar fyrir utan ætla ég að spila golf og njóta lífsins svona almennt,“ segir Þórður að lokum.

Eigendur Prentmet Odda þakka Þórði fyrir frábært samstarf og óska honum og fjölskyldu hans velfarnaðar á komandi tímum.