20091005 ymaÍ dag 8. nóvember er baráttudagurinn gegn einelti. Prentmet sýndi þessum degi virðingu með því að láta viðvörunarbjöllur hljóma kl. 13.00 í sjö mínútur. Starfsmenn eru hvattir til þess að setja sig í spor þolenda eineltis og afleiðingar þess og einnig til þess að skrifa undir þjóðarsáttmála um baráttu gegn einelti. Prentmet stendur árlega fyrir forvarnarátakinu um Ýmu tröllastelpu, Ég vil fá að vera ég sjálf, sem er ætlað öllum 6 ára börnum á Íslandi í samstarfi við Olweusarverkefnið gegn einelti. Bókin er gjöf frá Prentmeti og hefur verið gefin út ár hvert frá 2002.

 

Tilgangurinn er fyrst og fremst að vekja alla til umhugsunar um hve mikilvægt það er að öll börn þori að vera – og geti verið – þau sjálf. Einnig að þau njóti sín í leik og starfi á eigin forsendum.

 

Kannanir sýna að efnið er notað í kennslustundum eins og lífsleikni og á bekkjarfundum. Eineltishringurinn er mikið notaður í umræðunni um Ýmu. Efnið hjálpar nemendum að setja sig í spor annarra og er gott umræðuefni um líðan í bekknum, gott viðfangsefni um fjölmenningu og vel til þess fallið að ræða það að engir tveir eru eins.

 

Ýma er eins konar tákngervingur fyrir markmið og tilgang þeirra sem berjast gegn einelti. Hún fer aðeins fram á að fá að vera hún sjálf, sama hvað aðrir segja um hana. Það getur hver sem er orðið fyrir einelti og því er mikilvægt að stuðla að umhverfi sem kemur í veg fyrir slíkt.

 

Aðferðafræði Ýmuverkefnisins og Olweusarverkefnisins á erindi alls staðar í samfélaginu, í skólakerfinu sem og á öðrum vinnustöðum. Okkur þarf öllum að líða vel í umhverfi okkar svo við fáum að blómstra og náum sem bestum árangri í leik og starfi. Rík áhersla er lögð á það í stefnu fyrirtækisins að öllum líði vel í vinnustaðnum.

 

Sáttmálinn
Verkefnastjórn um aðgerðir gegn einelti hefur ákveðið að helga 8. nóvember ár hvert baráttunni gegn einelti. Slíkur baráttudagur var fyrst haldinn árið 2011 og markmiðið með deginum er og var að vekja sérstaka athygli á málefninu. Undirritun fulltrúa félaga, samtaka og opinberra stofnana á þjóðarsáttmála gegn einelti var þar einn liður. Sáttmálinn er einnig grunnur að frekari vinnu, við hann má bæta og miða í þeim efnum við þarfir þeirra fjölmörgu félaga, samtaka og stofnanna er undirrituð sáttmálann í Höfða í fyrra. Sáttmálan má því útfæra enn frekar með undirmarkmiðum og fjölbreyttum verkefnum.
Þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti

„Við undirrituð skuldbindum okkur til þess að vinna af alefli og einurð gegn einelti í samfélagi okkar. Við munum standa vörð um rétt fólks til þess að lifa í sátt og samlyndi við umhverfi sitt. Við munum sérstaklega gæta réttar barna og ungmenna sem og einnig allra hópa sem ekki eiga sér málsvara eða sterka rödd.
Við munum öll hvert á okkar sviði, skuldbinda okkur til þess að hafa áhrif til góðs á nánasta umhverfi okkar. Við ætlum að vera góð fyrirmynd og leggja okkar af mörkum til þess að vinna bug á því samfélagslega böli sem einelti er“.

 

Sýndu í verki að þú sért á móti einelti og skrifaðu undir
Þjóðarsáttmáli um baráttu gegn einelti undirritaður af samstarfsaðilum