Í dag, fimmtudaginn 23. júlí kom út tölublað númer tvö þúsund hjá Dagskránni, Fréttablaði Suðurlands á Selfossi frá því að fyrsta blaðið kom út 1. mars 1968.  Dagskráin er eitt af elstu héraðsfréttablöðum landsins og kemur út á hverjum fimmtudegi og er dreift frítt í Árnes-, Rangárvalla-, og Vestur-Skaftafellssýslu, auk þess sem það liggur frammi í stærstu verslunum og þjónustustöðum á Selfossi  og nágrenni.  Það vekur athygli að aðeins þrír ritstjórar hafa stýrt blaðinu í þessi 41 ár eða þeir Haraldur Hafsteinn Pétursson, Örn Grétarsson og núverandi ritstjóri, Magnús Hlynur Hreiðarsson.  Auglýsingastjóri er Katla Harðardóttir. Eigendur blaðsins eru hjónin Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, sem eiga  og  reka Prentmet. Meðfylgjandi mynd var tekin af starfsfólki Prentmets Suðurlands þegar tvö þúsundasta tölublaðinu var fagnað með glæsilegri köku frá Guðnabakaríi á Selfossi, talið frá vinstri, Gunnar Óðinn Gunnarsson, Kjartan Már Hjálmarsson, Hallgrímur Helgi Óskarsson, Katla Harðardóttir, Emma Guðnadóttir, Magnús Hlynur Hreiðarsson, Valdimar Bragason og Örn Grétarsson.