Prentmet hefur prentað bókina Reykvíkingar – Fólkið sem breytti Reykjavík úr bæ í borg eftir Þorstein Jónsson. Sögusteinn gefur bókina út og samstarfsmaður Þorsteins í verkinu varðandi ættfræðihlutann er Eggert Thorberg Kjartansson. Prentmet sá um alla prentun og bókband, Jesús Rodriguez um umbrotsvinnu og myndvinnslu. Þorsteinn byggir rit sitt á manntalinu sem gert var í Reykjavík 1902 og á uppdrættinum sem til er af bænum frá 1915.

„Verkið er þríþætt: Hér er að finna ættarsögu með knöppum upplýsingum um búsetu þeirra fyrir og eftir sem bjuggu við göturnar á þessum tíma, afkomendur eru taldir og í þessum ættfærslum má sjá og finna búsetusögu, hvernig þjóðin færðist til á hartnær aldar tímabili. Þá er verkið byggðasaga í þeim skilningi að hér má sjá hvernig byggðin varð til frá upphafi og þar til sum húsin voru rifin, brunnu eða voru flutt; standi þau ekki enn. Bókin er þannig húsasaga Reykjavíkur og sést hér hvernig verðmætamat Reykvíkinga, yfirvalda og almennings, lék byggðina. Loks er verkið minjasaga í myndum: Þorsteinn birtir í ritinu bæði eldri og yngri myndir af húsunum sem koma við sögu, forverum þeirra ef þær myndir eru til, bæði myndir sem kunnugar eru og eins myndir sem eru fáséðar eða hafa aldrei komið á prent. Þá er í verkinu myndarlegt safn mannamynda af íbúum og afkomendum þeirra“. (Bókadómur í Fréttatímanum 26.08 2011 | Menning).

Niðurröðun í verkið á götum eftir stafrófsröð leysir þann vanda hvernig skipa á niður í svona verk. Göturnar sem eru lagðar til grundvallar fyrsta bindinu sýna mikla vídd: Hér koma saman embættismenn og kaupmenn, iðnaðarmenn og múgafólk, og í hverri línu við hvert nafn er að finna örlagasögu sem opnar okkur víddir inn í hina fjölbreyttu þjóðleifð sem hér varð til upp úr aldamótunum þegar fólkið úr sveitunum tók að flytjast á mölina“ .

(Bókadómur í Fréttatímanum 26.08 2011 | Menning).