Sýningin mun standa uppi í einn mánuð og er opin öllum í anddyri hótelsins. Dagskráin var fyrst gefin út til að sjónvarpsnotendur gætu fylgst með dagskrá ríkissjónvarpsins. Auglýsingar voru seldar með til að standa undir kostnaði. Brot blaðsins var A5 fyrstu árin, eða til 1980 þegar var ákveðið að stækka brotið í dagblaðastærð og farið var að skrifa fréttir í blaðið. Blaðið hefur þroskast og þróast vel í gegnum þessi 40 ár og er í dag með allra öflugustu héraðsfréttablöðum landsins. Dagskránni er dreift inn á öll heimili og fyrirtæki á Suðurlandi. Blaðið hefur hlotið viðurkenningu frá auglýsendum og lesendum fyrir stílhreint útlit og góða prentun. Dreifingarsvæðið eru Árnes-, Rangárvalla- og Vestur-Skaftafellssýsla, auk þess sem blaðið liggur frammi í stærstu verslunum og þjónustustöðum á Selfossi og nágrenni. Þá er blaðið sent til áskrifenda um allt land og víða erlendis, ásamt því að vera gefið út í pdf formi á heimasíðum. Blaðið kemur út á hverjum fimmtudegi og er gefið út í um 9.000 eintökum. Aðeins þrír ritstjórar hafa starfað við blaðið í þessi 40 ár, fyrst Haraldur Hafsteinn Pétursson, síðan Örn Grétarsson og núverandi ritstjóri, Magnús Hlynur Hreiðarsson. Á meðfylgjandi mynd eru Þeir Örn og Magnús Hlynur á sýningunni í Hótel Selfossi, Örn með myndaramma af fyrsta blöðunum og Magnús Hlynur með afmælisblaðið.