Þann sama dag verður opnuð sýning í Hótel Selfossi, “Dagskráin í 40 ár” og gestum Prentmets Suðurlands á Selfossi verður boðið upp á veitingar. Blaðið hefur vaxið og dafnað vel á þessum fjörutíu árum, er í dag prentað í 8.900 eintökum og dreift frítt inn á öll heimili og fyrirtæki í sýslunum þremur austan Hellisheiðar. Í þessi 40 ár hafa þrír ritstjórar starfað við blaðið, fyrst Haraldur Hafsteinn Pétursson, prentsmiðjustjóri Prentsmiðju Suðurlands, þá Örn Grétarsson, prentsmiðjustjóri og í dag Magnús Hlynur Hreiðarsson, sem tók við starfinu 1. ágúst 2006 þegar Prentmet Suðurlands keypti Prentsmiðju Suðurlands. Blaðið er gefið út á hverjum fimmtudegi og er það oftast 16 eða 20 síður. Á meðfylgjandi mynd má sjá Magnús Hlyn með nýjasta eintakið af blaðinu.