Edda Printing and Publishing Ltd. hefur fyrir hönd óstofnaðs eignarhaldsfélags keypt Prentmet ehf. Fyrir á Edda PP allt hlutafé í Edda Printing LLC sem rekur eina stærstu og fullkomnustu prentsmiðju Pétursborgar í Rússlandi. Áætluð sameiginleg velta prentsmiðjanna á Íslandi og Rússlandi á yfirstandandi ári er vel á fjórða milljarð króna og þar af rúmlega helmingur ytra. Viðskipti þessi eru háð eðlilegum fyrirvara um niðurstöður áreiðanleikakönnunar. Kaupverð fyrirtækisins er trúnaðarmál.

Prentmet var stofnað 1992 af hjónunum Guðmundi Ragnari Guðmundssyni og Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttur. Fyrirtækið hefur dafnað vel og starfa þar nú rúmlega 100 manns. Prentmet leggur áherslu á hraða, gæði og persónulega þjónustu og hefur nú yfir að ráða mestri breidd í prentun á Íslandi. Dótturfélag Prentmets, Prentverk Akraness, fylgir með í kaupunum. Guðmundur Ragnar og Ingibjörg Steinunn munu starfa áfram hjá fyrirtækinu auk þess sem þau munu sinna stjórnarstörfum hér heima og ytra.

Eigendur Eddu Printing and Publishing Ltd. eru Björgólfur Guðmundsson, Magnús Þorsteinsson, Páll Bragi Kristjónsson og Þór Kristjánsson.