Í nóvember á síðasta ári gerði Prentmet samning við veitingakeðjuna Metró um framleiðslu umbúða fyrir vörur þeirra. Til þess að geta sinnt þörfum Metró, festi Prentmet kaup á sérhæfðri vél til þeirrar framleiðslu og varð fyrir valinu vél frá Heiber Schröder í Þýskalandi. Vélin er sú fyrsta sinnar tegundar á Íslandi og með tilkomu hennar býður Prentmet upp á nýjar lausnir í framleiðslu umbúða fyrir hvers kyns iðnað og matvælaframleiðslu.
Má þar nefna umbúðir fyrir grænmetisbændur, samlokugerðir, skyndibitastaði, bakarí o.fl. (sjá mynd). Oftar en ekki er notaður í framleiðsluna umbúðakarton sem er bæði raka- og frostheldur ásamt karton sem þolir hitun bæði í örbylgju- og bakarofnum. Eingöngu er notaður viðurkenndur matvælavænn kartonpappír.
Með tilkomu þessarar vélar skapast gott tækifæri fyrir innlenda framleiðendur til þess að fá þessar umbúðir framleiddar hér heima, en hingað til hafa þeir þurft að flytja þær inn, þar sem vélakostur hefur ekki verið til staðar hér á landi.