Meðal skemmtiatriða má nefna þá félaga, Skapta Ólafsson og Ara Jónsson prentara hjá Prentmet, sem sungu við undirleik Jóns Ólafssonar, Jón Gnarr, sem fór á kostum, Matthías Matthíasson úr Pöpunum og söng hann meðal annars með Erni Árnasyni lag um Prentmet sem Örn Árnason samdi. Í afmælinu var kynnt nýtt kynningarmyndband Prentmets. Þá var forvarnaverkefnið um hana Ýmu tröllastelpu kynnt með stuttum leikþætti sem þær Ólafía Hrönn Jónsdóttir og Halldóra Geirharðsdóttir sáu um.

Eigendur Prentmets, þau Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, fóru stuttlega yfir sögu fyrirtækisins og sögðu frá því sem framundan er. Starfsmenn færðu þeim glæsilega gjöf á þessum tímamótum, álft úr stáli, sem er að hefja sig til flugs eftir listamanninn Grím Marinó Steindórsson.

Á afmælinu heiðruðu Geir Haarde, forsætisráðherra og Inga Jóna Þórðardóttir, ásamt Magnúsi Stefánssyni, félagsmálaráðherra og Sigrúnu Drífu Óttarsdóttir gesti með nærveru sinni. Stuðmenn léku síðan fyrir dansi fram á nótt.