Þetta var léttur og litríkur fyrirlestur byggður á persónuleikakenningum Jung og Insights kerfinu. Farið var í fjórar grunnpersónugerðir, sem skipt er eftir litum, og þær bornar saman út frá ólíkum styrkleikum, veikleikum, vinnuvenjum og samskiptaþörfum. Markmiðið með fyrirlestrinum var:

– Að hvetja til sjálfsskoðunar um eigin persónuleika, samskiptastíl og vinnuvenjur.

– Að nýta styrkleika sinn og meta styrk ólíkra persónugerða.

– Að nýta sér fræðsluna til aukinnar starfs- og samskiptaleikni.

Ríkjandi persónuleikaeinkenni eftir litum eru í meginatriðum:

Blár = nákvæmni, íhaldssemi, festa og reglur.

Rauður = jákvæðni, kappsemi, áræðni og öryggi.

Grænn = tillitssemi, friðsemi, samkennd og viðkvæmni.

Gulur = fjör, hvatning, hugmyndir og léttleiki.

Langflestir eru blandaðir úr ölllum litum þar sem einn til tveir litir eru ráðandi. Litirnir eru allir jafn réttháir og vinna vel saman. Mikilvægt er að allir persónuleikarnir séu á vinnustaðnum til að vega upp á móti hver öðrum og allir fái að njóta sín. Það kynni til dæmis ekki góðri lukku að stýra ef vinnustaðurinn væri einungis skipaður rauðum einstaklingum eða bara gulum. Í samskiptum komum við misjafnlega fram við fólk eftir því hvaða litur er ríkjandi í persónuleika þess. T.d. vill bláa persónugerðin hafa meiri formlegheit og nákvæmni en sú gula.

Fyrirlesturinn var afskaplega fróðlegur og skemmtilegur og höfðu þátttakendur gaman af að litgreina sjálfa sig, samstarfsfélagana og fjölskyldumeðlimi.