Nýja Roland 706 prentvélin var formlega tekin í notkun þ. 15. ágúst. Gangsetningunni var stýrt af Valgerði Sverrisdóttur iðnaðarráðherra sem ræsti vélina með glæsibrag og gaf henni nafn í leiðinni. Vélin var nefnd Bifröst enda nafnið tengt þeim stað þar sem hugmyndin að stofnun fyrirtækisins kviknaði en stofnendur og eigendur Prentmets voru við nám í Viðskiptaháskólanum að Bifröst í Borgarfirði þegar hugmyndin að öðruvísi prentfyrirtæki vaknaði. Við þessa hátíðlegu stund notuðu forsvarsmenn Prentmets tækifærið og kynntu forvarnarátak sem unnið er í samráði við Regnbogabörn. Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir markaðs- og starfsmannastjóri afhenti Freyju Sigurbjarnardóttur framkvæmdastjóra Regnbogabarna litabók sem ber nafnið  „Ýma tröllastelpa – ég vil vera ég sjálf“ og sýnir tröllastelpuna Ýmu í eineltisvandræðum og hvernig henni tekst að leysa vandann. Hugmyndasmíði bókarinnar var alfarið í höndum Prentmets en áður hefur Ýma tekist á við umferðarreglurnar. Ingibjörg Steinunn er höfundur bókarinnar og Jóhann Ævar Grímsson vann ásamt henni að textavinnslu. Myndirnar í bókinni eru teiknaðar af Icelandic Animations. Bók þessi verður gefin öllum 6,7 og 8 ára börnum á landinu – alls 15.000 börnum. Að sjálfsögðu var litabókin prentuð í nýju Roland 706 prentvélinni.