Laugardaginn 12. desember heimsóttu tveir stórskrítnir kúnnar Prentmet. Þetta voru bræðurnir Kertasníkir og Hurðaskellir sem datt í hug að gefa út bækling svona rétt fyrir jólin. Það vildi svo til að Prentmet stóð á sama tíma fyrir jólaballi fyrir starfsmenn sína.

Matsalur Prentmets var fullur af starfsmönnum ásamt börnum sínum við dans og gleði svona rétt fyrir jólin þegar þeir félagar mættu á svæðið. Þegar starfsmenn Prentmets fóru að kanna innihald bókarinnar, sem þeir bræður voru með handrit að undir höndum, kom í ljós kafli um það hvernig meðhöndla skuli brothættar jólagjafir á vélsleða á leið í bæinn, annar fjallaði um hvernig umbera mætti táfýlu af jólasveini þegar hann væri búinn að setja í skóinn heila nótt og einnig mátti finna leiðbeiningar um hvernig koma ætti Grýlu í bað einu sinni á ári.

Einn kaflinn fjallaði síðan um það hvernig mætti fá Leppalúða letihaug til að gera eitthvað en þær síður voru bara auðar. Bókin verður sennilega ekki gefin út því þeir bræður áttu engan pening og vissu varla hvað svoleiðis er. Þeir komu með vídeóspólu sem þeir héldu að væri bók og gerðu allt sem þeir gátu til þess að lesa hana fyrir börnin.

Sigurður Hlöðversson stuðbolti og grafískur hönnuður hélt uppi stuði í tónlist og reyndi eftir bestu getu að stýra þessum stórskrítnu köllum sem ætluðu að gefa út jólasveinabókina. Þess má geta að þeir Hurðaskellir og Kertasníkir skemmtu sér konunglega innan um starfsmenn Prentmets og afkomendur þeirra, sýndu allskyns kúnstir og reyndu meira að segja að galdra menn upp úr skónum.

Það var fjölmennt á ballinu og mikið sungið og dansað. Öll börnin fengu síðan vænan nammipoka frá þeim bræðrum. Þetta var fyrsta jólaball Prentmets og var það afskaplega vel lukkað í alla staði.