Prentmet keypti fyrir áramót Prentverk Akraness og hefur tekið við rekstri fyrirtækisins. Okkur er það heiður að taka við rekstri fyrirtækisins sem Ólafur B. Björnsson ritstjóri stofnaði árið 1942.

Starfsmenn Prentverks Akraness búa yfir góðri þekkingu og mikilli reynslu sem nýtist fyrirtækinu áfram. Allir núverandi starfsmenn Prentverks halda áfram að starfa hjá fyrirtækinu nema Indriði Valdimarsson sem mun láta af störfum sem framkvæmdastjóri. Hann verður þó áfram í nánu samstarfi við PA þar sem hann mun skrifa greinar í Póstinn. Sterk tengsl eru á milli nýrra eigenda fyrirtækisins og Akraness. Eigendur eru Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir og Guðmundur Ragnar Guðmundsson. Ingibjörg er fædd og uppalin á Akranesi. Framkvæmdastjóri verður Guðmundur Ragnar Guðmundsson. Eigendurnir eru báðir menntaðir rekstrarfræðingar frá Samvinnuháskólanum á Bifröst.
Pósturinn mun koma áfram út með óbreyttu sniði. Í framtíðinni líta menn björtum augum á aukningu í umfangi Póstsins með það að leiðarljósi að auka enn frekar þjónustugildi hans.
Prentmet hefur í hyggju að efla starfsemi PrentverkAkraness, auka þjónustuna og leggja áherslu á hraða, gæði og persónulega þjónustu.