Listasafn Reykjavíkur hlaut fyrstu verðlaun fyrir bókahönnun hjá FÍT, Félagi íslenskra teiknara, í gær fyrir bókina Experiment Marathon. Bókin er prentuð í Prentmet og starfsfólk Prentmets er mjög stolt og ánægt með útkomuna.

Fréttatilkynning Listasafns Reykjavíkur
Í gær vann bókin Experiment Marathon fyrstu verðlaun fyrir bókahönnun hjá FÍT, Félagi íslenskra teiknara, en bókin er gefin út af Listasafni Reykjavíkur í samvinnu við Serpentine Gallery í Lundúnum.

Bókin Experiment Marathon var gefin út í tilefni af samnefndu sýningaverkefni sem Hans Ulrich Obrist og Ólafur Elíasson stýrðu í Hafnarhúsinu vorið 2008. Verkefnið samanstóð af tveggja daga tilraunum og sýningu sem stóð yfir allt sumarið þar sem stór hópur af þekktum alþjóðlegum samtímalistamönnum komu fram. Verkefnið var einnig þungamiðja Listahátíðar árið 2008.

Bókin Experiment Marathon er í alþjóðlegri dreifingu í samvinnu við Koenig Books og DAP í New York og er senn á þrotum vegna mikillar eftirspurnar.

Verðlaunin eru mikil lyftistöng fyrir Listasafn Reykjavíkur, sem hefur lagt ríka áherslu á vandaðar sýningarskrár í tengslum við sýningar sínar. Fleiri útgáfur, sem safnið hefur staðið að, hafa unnið til margvíslegra viðurkenninga og verðlauna, en margar hverjar eru þegar uppseldar eða til í fáum eintökum, t.a.m. bókin um Eggert Pétursson og sýningarskráin um sýninguna Skáklist sem gríðarleg eftirspurn er eftir um allan heim.