Bókin Mannvist – sýnisbók íslenskra fornleifa eftir Birnu Lárusdóttur fornleifafræðing er komin út hjá Opnu. Prentmet prentaði bókina og sá um alla prentvinnslu og bókband. Bókaútgáfan Opna gaf bókina út og hönnuður bókar er Anna C. Leplar. Bókin er hin glæsilegasta, innbundin og 470 blaðsíður á lengd.

Bókin opnar heim fornleifa fyrir leikum og lærðum. Birna og samverkamenn hennar settu sér það markmið að beina sjónarhorninu frá helstu sögustöðum og valdasetrum að hversdagslegri minjum um daglegt líf almennings. Fornar leifar á Íslandi er að finna á ólíklegustu stöðum úti um allt land og frá ýmsum aldursskeiðum því ekki eru allar fornleifar svo ýkja gamlar, samkvæmt skilgreiningu laganna er miðað við 100 ár. Bókin er búin fjöldamörgum ljósmyndum sem styðja við textann.

„Íslenskar fornleifar eru yfirleitt ekki rismiklar eða áberandi. Þær eru þvert á móti lágstemmdar í einfaldleika sínum, falla oft vel inn í landslagið og eru hluti af því. Sumar mannvirkjaleifar eru þó mjög greinilegar og sjást langt að, veggir úr torfi og grjóti enn stæðilegir og undir þeim grænir og gróskumiklir hólar, þrungnir áburði eftir aldalöng umsvif fólks og skepnubeit. Aðrar fornleifar getur verið vandasamt að koma auga á og þarf stundum að hafa sig allan við, hvessa augun og halla undir flatt, klifra upp á hól til að fá nýtt sjónarhorn eða jafnvel bíða eftir að kvöldsólin baði landið með geislum sínum og töfri fram skugga og drætti úr fortíðinni …” segir Birna Lárusdóttir í inngangi.

Birna Lárusdóttir er fornleifafræðingur og hefur starfað hjá Fornleifastofnun Íslands frá árinu 1999. Hún er aðalhöfundur þessa mikla verks og jafnframt ritstjóri þess. Aðrir höfundar efnis eru Adolf Friðriksson, Árni Hjartarson, Bjarni F. Einarsson, Elín Ósk Hreiðarsdóttir, Guðmundur J. Guðmundsson, Hildur Gestsdóttir, Orri Vésteinsson og Þóra Pétursdóttir. Fornleifastofnun Íslands átti einnig gott samstarf við vinnslu á bókinni.