Prentmet Vesturlands hefur séð um alla prentvinnslu á nýrri og vandaðri barnabók sem heitir „Á ferð og flugi með ömmu“ og er eftir Hallberu Fríði Jóhannesdóttur skólasafnskennara í Brekkubæjarskóla á Akranesi. Myndskreyting bókarinnar er unnin af Bjarna Þór Bjarnasyni myndlistarmanni. Hallbera og Bjarni Þór eru bæði fædd og uppalin á Akranesi og hafa lengst af ævinnar búið þar. Bókinni er ætlað að varðveita gamlar sögur og sagnir af Akranesi, gera þær aðgengilegar fyrir börn og glæða örnefnin lífi í máli og myndum. Á ferð og flugi með ömmu segir frá stráknum Frey og ömmu hans og ferðum þeirra um Akranes og nágrenni. Sagan er í fjórum sjálfstæðum hlutum sem gerast á öllum árstíðum. Á ferð sinni um Akranes lenda Freyr og amma hans í ýmsum ævintýrum og ekki spillir fyrir að amman er örlát á frásagnir frá liðinni tíð sem gerst hafa á og við Akranes. Í sögum ömmunnar koma fyrir m.a. skessur, sjóslys, fátækt fólk, Langisandur, Akrafjallið og Elínarhöfði. Ferðir Freys og ömmu hans um Akranes eru því spennandi en umfram allt lærdómsríkar. Lesendur bókarinnar munu geta slegist í skemmtilega för með ömmu og Frey á næstunni.