Guðjón Sigurðsson, framkvæmdastjóri Hvítlistar, hélt klukkustundar fræðsluerindi fyrir starfsfólk Prentmets um pappír dagana 17. og 24. janúar. Var það liður í námsefni Prentmetsskólans.

Guðjón fræddi okkur um mismunandi eiginleika trjátegunda í pappírsgerð. Lauftré, t.d. birki, gefa af sér stuttar trefjar sem henta vel í betri prentpappír og mynda þétta kvoðu sem dregur vel að sér farfa. Barrtré. t.d. fura og greni, gefa hinsvegar af sér langar trefjar sem gefa styrk og stífni. Af þessu leiðir að mismunandi pappír inniheldur gjarnan óllikar blöndur trjátrefja sem ætlað er að upphefja bestu eiginleika hverrar tegundar. Þegar pappír er endurunninn dvína eiginleikar trefjanna mjög og einungis er hægt að endurvinna pappír einu sinni. Þannig hefur hlutfall endurunnins massa minnkað mjög og notkun hans færst yfir á vörutegundir sem henta, svo sem dagblaðapappír og aðrar grófari pappírsgerðir.

Þá fræddi Guðjón starfsmenn um pappírsframleiðslu, sem byggir í aðalatriðum á trjám, gífurlegri orku og miklu af hreinu og rennandi vatni. Einnig að prentpappír væri framleiddur á tvo vegu, mekanískan og kemískan. Farið var í legu pappírs, þ.e. hvort hann er langtrefja eða skammtrefja, og mismuninn á húðuðum pappír og óhúðuðum.

Hugtök sem eru notuð um áferð á pappír eru:

A) Mattur eða steinmattur
B) Hálfmattur eða silkimattur
C) Hálfglans eða perlumattur
D) Glansandi eða gloss

Það fer algjörlega eftir eðli hvers verks fyrir sig hvaða pappír er hentugast að nota, til dæmis er hentugra að hafa mattan eða hálfmattan pappír í efni sem inniheldur mikinn texta en glanspappír í t.d. tímaritakápu. Hann fræddi starfsmenn um að skógar heims væru ekki í hættu vegna pappírsframleiðslu því að vöxtur skóga í Evrópu hefur aukist um allt að 30% frá lokum fyrri heimsstyrjaldar og er nú víða lagðar hömlur á það hve mikil landsvæði er heimilt að taka undir skógrækt t.d. í Svíþjóð.

Efnið hjá Guðjóni var mjög áhugavert og starfsmenn núna ennþá fróðari til að takast á við störf sín.