Árlega gengst Sappi (South African Pulp and Paper Industries Corp.) fyrir samkeppni prentgripa sem unnir eru úr pappír framleiddum í verksmiðjum þeirra.
Þessi samkeppni fer fyrst fram í hinum ýmsu heimsálfum snemma árs og síðan eru vinningsverkin frá hverri heimsálfu tilnefnd til alheimsverðlauna SAPPI í lok árs.
Alls voru um 6000 prentgripir víðsvegar að úr Evrópu, frá yfir 800 prentsmiðjum, sendir inn í keppnina. Keppt er í 9 flokkum og veitt verðlaun fyrir fyrstu 3 sætin. Þau fyrirtæki sem vinna Gull fara síðan áfram í alheimskeppnina þar sem áfram er keppt í þessum 9 flokkum. Í fyrra vann Evrópa 7 af 9 flokkum sem sýnir hversu gríðarleg gæði eru hjá evrópskum prentfyrirtækjum.
Að að þessu sinni hlaut Prentmet ehf. silfurverðlaun evrópsku dómnefndarinnar í flokknum „Annual reports“, en verkið var ársskýrsla Alfesca fyrir 2006. Gullverðlaun í þessu flokki hlaut ársskýrsla Hugo Boss 2006, prentuð af Raff í Þýskalandi. Þessi flokkur er talinn einn sá erfiðasti í keppninni þar sem flest fyrirtæki senda inn verk í þessum flokki. Þetta er því gríðarleg viðurkenning fyrir Prentmet og starfsfólk þess.
Dómnefnd keppninnar samanstendur af 6 sérfróðum einstaklingum frá jafnmörgum þjóðlöndum þar sem hver og einn gefur innsendum verkum einkunn á sínu sérsviði.
Sappi mun vera stærsti framleiðandi myndapappírs í heiminum. Það er því mikið afrek að vinna til verðlauna í þessari keppni og ástæða til að nefna að 4 ár munu liðin frá því verk frá Norðurlöndum vann síðast til verðlauna þar til nú að verk frá Prentmeti og annað frá Svíþjóð, hlutu náð fyrir augum evrópsku dómnefndarinnar. Árið 2004 hlaut prentsmiðja frá Svíþjóð bronsverðlaun.
Silfurverðlaunin eru íslenskum prentiðnaði og hönnun til mikils sóma í svo harðri samkeppni sambærilegra verka alls staðar að úr Evrópu, en skýrslan var hönnuð af H2 hönnun, og ritstýrt af AP Almannatengslum ehf.
Forsvarsmenn og eigendur Prentmets Guðmundur Ragnar Guðmundsson og Ingibjög Steinunn Ingjaldsdóttir tóku við verðlaununum við hátíðlega athöfn í Hamborg laugardaginn 31. maí sl. ásamt Guðjóni Sigurðssyni, framkvæmdastjóra Hvítlistar hf, sem er umboðsaðili Sappi á Íslandi.