Nýir eigendur Prentsmiðju Suðurlands, þau Guðmundur Ragnar og Ingibjörg Steinunn, ásamt syni sínum Arnaldi Þór Guðmundssyni og Erni Grétarssyni.

Nýju eigendurnir eiga einnig Prentmet í Reykjavík og Prentverk Akraness. Allir starfsmenn Prentsmiðju Suðurlands munu vinna áfram hjá nýju eigendunum og verður Örn Grétarsson prentsmiðjustjóri á Selfossi. Stefna Guðmundar og Ingibjargar er að efla starfsemi prentsmiðjunnar enn frekar þar sem einkunnarorðin verða hraði, gæði og persónuleg þjónusta. Þá ætla þau að treysta stöðu Dagskrárinnar enn frekar á markaðnum og efla blaðið til muna.

Prentsmiðja Suðurlands ehf. var stofnuð 30. júlí 1957. Saga prentlistarinnar í Árnesþingi er þó um það bil 300 árum eldri því fyrsta prentsmiðjan í sýslunni var sett upp í Skálholti árið 1685. Stofnendur Prentsmiðju Suðurlands voru þeir Haraldur Hafstein Pétursson og Klemens Guðmundsson. Í upphafi var eingöngu um smáprentun að ræða hjá fyrirtækinu en vélakostur var fljótlega endurnýjaður og stór handílögð prentvél keypt svo og setjaravél. Vorið 1959 byrjaði prentsmiðjan að prenta héraðsblaðið Suðurland og vorið 1962 bættist héraðsblaðið Þjóðólfur við. Dagskráin hóf svo göngu sína vorið 1968 og hefur alla tíð verið unnin í prentsmiðjunni og er stór þáttur í rekstri hennar.

Hjá Prentmet starfa um eitt hundrað manns í Reykjavík. Það er því augljóst að svo sterkur bakhjarl sem Prentmet er mun styrkja Prentsmiðju Suðurlands til muna. Ritfanga- og rekstrarvöruverslun verður seld útúr fyrirtækinu samhliða kaupum nýju eigendenna, og mun hún flytjast til Tölvutaks að Eyravegi 27 Selfossi.