Prentmet Oddi ehf. hefur fengið sjálfbærnimerki Landsbankans þar sem fyrirtækið er með vottun norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Sjálfbærnimerki Landsbankans er veitt þeim fyrirtækjum sem uppfylla skilyrði um sjálfbærni sem sett eru fram í sjálfbærri fjármálaumgjörð bankans og standast strangar kröfur um umhverfisvæn verkefni.

Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir stjórnarformaður, annar af stofnendum og eigendum Prentmets Odda, segir: „Við erum stolt af því að vera í hópi þeirra fyrirtækja á Íslandi sem hafa hlotið sjálfbærnimerki Landsbankans. Frá stofnun höfum við hjá Prentmeti Odda lagt okkur fram við að stuðla að jákvæðum umhverfisáhrifum með notkun umhverfisvænna hráefna, skipulagðri endurvinnslu og öðrum áherslum sem styðja við umhverfisvernd. Svansvottun fyrir prentsmiðjur gerir kröfur til alls framleiðsluferlisins, þar með talið til efnanotkunar og flokkunar á úrgangi. Við knýjum okkar framleiðslu með hreinum og endurnýjanlegum orkugjöfum og við flokkum og vinnum að fullnýtingu á úrgangi. Við notum vistvænan pappír úr sjálfbærum nytjaskógum í Evrópu og styðjum þannig bæði við sjálfbæra skógrækt og betra loftslag. Prentmet Oddi stuðlar einnig að stækkun skóga hér á landi og er bakhjarl Birkiverkefnisins sem Landgræðslan og Skógræktarfélag Íslands standa fyrir. Birkiverkefnið er loftslagsverkefni og er liður í útbreiðslu birkiskóga sem þöktu a.m.k. fjórðung landsins við landnám.“