Prentmet Oddi í samstarfi við Skógræktarfélag Íslands, Landgræðsluna, Terra, Bónus, Landvernd og Lionshreyfinguna óska eftir stuðningi landsmanna við að breiða birkiskóga landsins út.

Miðvikudaginn 16. september n.k. mun átakið fara í gang á degi Íslenskrar náttúru. Prentmet Oddi hefur nú hannað og prentað öskjur fyrir birkifræin sem allur almenningur og hópar vítt og breitt um landið munu safna. Landsmenn munu safna birkifræjum í nágrenni sínu eða í völdum birkiskógum í sínum landshluta. Á öskjunni merkir fólk hvar og hvenær fræið er tínt. Hægt verður að skila öskjunum með birkifræjunum í sérmerktar tunnur í verslunum Bónus, starfsstöðvar Terra, Skógræktarinnar og Landgræðslunnar. Fræin þurfa að vera í kæli ef þarf að geyma þau. Alltaf þarf að skrá hvar og hvenær fræið var tínt. Hægt er að skrifa þetta á box átaksins. Fræin sem er skilað á söfnunarstöðvar verður dreift í haust undir leiðsögn starfsmanna Skógræktarinnar og Landgræðslunnar.

Á myndinni eru aðilar þessa átaks með öskjur fyrir þetta átak.  Aftast t.v. Baldur Ólafson frá Bónus, Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir og Guðmundur Ragnar Guðmundsson frá Prentmet Odda, við tunnu Freyr Eyjólfsson og Líf Lárussdóttir frá Terra,  Guðmundur Halldórsson og Áskell Þórisson frá Landgræðslunni. Fulltrúar Skógræktarinnar, Landverndar og Lionshreyfingarinnar komust ekki í myndatöku.