Fyrsta golfmót Prentmets var haldið á golfvellinum í Öndverðarnesi 26. júní síðastliðinn.
Starfsfólk Prentmets, ásamt nokkrum afkomenda sinna, sýndi mótinu mikinn áhuga og var farið í vel fullri rútu austur yfir heiði.

Menn voru að vonum bjartsýnir á góðan árangur enda golfáhugi mikill í fyrirtækinu. Sumir voru þó að slá bolta í fyrsta sinn á ævinni og mátti sjá golfbolta á ýmsum stöðum, bæði utan vallar og innan. Farnar voru níu holur og spiluðu tveir í holli. Völlurinn var þéttur og góður og var mat manna að þarna væri frábært að fara með minni hópa eftir vinnu og taka góða syrpur á golfvellinum. Mót þetta er komið til að vera og er áætlað að halda annað í ágúst. Prentmet open verður eflaust árlegur viðburður þegar frá líður. Á móti sem þessu sigra að sjálfsögðu allir bara með því að taka þátt.  

Þeir sem voru efstir að stigum voru þeir Einar Egilsson og Guðmundur Gíslason. Í öðru sæti voru þeir Oddgeir Gunnarsson og Sævar Haraldsson og í þriðja sæti voru feðgarnir Hilmar Halldórsson og Ólafur Hilmarsson.

Prentmet óskar golfliðinu til hamingju með frábært framtak og skemmtilega stund milli stríða.