Bókin „Þar sem himinn frýs við jörð – Íslendingar á heimskautsslóðum Kanada“ kom út fyrir jólin. Prentmet sá um alla prentun og bókband á bókinni. Umbrot og hönnun bókarinnar fór fram hjá Uppheimum. Aðalsteinn S. Sigfússon hannaði kápu. Höfundar bókarinnar eru Akurnesingarnir Magnús Þór Hafsteinsson og Friðþjófur Helgason. Bókina prýðir mikill fjöldi stórglæsilegra ljósmynda sem teknar voru í leiðangrinum. Auk þess fylgir henni rúmlega klukkustundar löng heimildarkvikmynd.

Norðurslóðir búa yfir mikilli náttúrufegurð og tækifærum. Þær skipta sífellt meira máli fyrir framtíð okkar allra og verða æ meira áberandi í allri umræðu um náttúruvernd, nýtingu auðlinda og samgöngur. Bæði mynd og bók fjalla um einstakan leiðangur þar sem nokkrir Íslendingar fóru akandi um Íshafsslóðir Kanada þar sem engir höfðu farið akandi áður. Þetta er ferðasaga, frásögnin af því þegar fimm Íslendingar lögðu í langferð á þremur bílum. Hún lá um fjarlægar og framandi slóðir. Fáum, ef þá nokkrum, hafði dottið í hug – hvað þá að framkvæma slíkan leiðangur í þessum hluta heims. Margir töldu þetta ómögulegt. Aðrir voru sannfærðir um að þetta væri glapræði, – þessi ferð væri að sönnu algert feigðarflan.“ (Þar sem himinn frýs við jörð).