Prentmet hf. hefur undirritað samninga við Skýrr hf. um víðtæka þjónustu á sviði upplýsingatækni. Samningarnir fela í megindráttum í sér að Skýrr veitir Prentmet alhliða Internetþjónustu, kerfisleigu (ASP) og talsverða tölvurekstrarþjónustu.

Internetþjónusta Skýrr felur annars vegar í sér ljósleiðaratengingu Prentmets við Internetið og hins vegar hýsingu á vefsvæði og vefumsjónarkerfi fyrirtækisins, ásamt viðeigandi gagnagrunnum. Hvað snertir Kerfisleigu Skýrr er um að ræða hýsingu á fjármálakerfum Prentmets og Office-skjölum. Tölvurekstrarþjónusta Skýrr, Netsjá, mun svo hafa umsjón með útstöðvahögun á stafrænu vinnuumhverfi skrifstofufólks Prentmets og hýsingu á Microsoft Exchange-miðlara.

Skýrr á og rekur miðlarana sem keyra umræddan búnað, ásamt því að sjá um gagnavörslu, umsýslu, aðgangsöryggi  og aðlögun. Innifalið í samningunum er að fyrirtækið veitir Prentmeti öryggis- og afritunarlausnir, varnir gegn ruslpósti og vírusum og aðgang að þjónustuborði allan sólarhringinn. Skýrr sér um uppsetningu á útstöðvum og prenturum á staðarneti Prentmets og veitir kennslu á kerfið. Þess má geta að starfsfólk Prentmets tengist hefðbundnu PC-umhverfi gegnum útstöðvahögun (terminal server) með Apple Macintosh-tölvum og þannig er komið í veg fyrir hverskonar vandkvæði við skjalasamskipti milli Windows- og Macintosh-umhverfis.

?Prentmet er ein framsæknasta prentsmiðja landsins með alhliða þjónustu og frábært starfsfólk. Helstu einkenni fyrirtækisins eru hraði, gæði, faglegur metnaður og persónuleg þjónusta. Fyrirtækið er þekkt fyrir að leysa málin og standa við gefin loforð. Prentmet byggir á sterkri liðsheild starfsfólks, nýjustu tækni og með markvissri sókn hefur fyrirtækið náð sterkri stöðu á markaði. Þetta er öflugt fyrirtæki sem við erum stoltir að hafa bætt við stækkandi hóp viðskiptavina okkar, sagði Georg Aspelund Þorkelsson, sölustjóri hjá Skýrr, við sama tækifæri.

„Skýrr er eitt öflugasta þekkingarfyrirtæki landsins og veitir afar fjölbreytta þjónustu á sviði upplýsingatækni. Meðal viðskiptavina Skýrr eru flest stærstu fyrirtæki og stofnanir landsins og meðal samstarfsaðila eru meðal annars upplýsingatæknirisar á borð við Oracle Corp., VeriSign og Business Objects. Að öllu samanlögðu töldum við okkur í öruggum höndum hjá Skýrr og höfum sannreynt að þar fáum við fyrsta flokks þjónustu á samkeppnishæfu verði,“ sagði Hilmar Halldórsson, verkefnastjóri markaðssviðs hjá Prentmeti, við undirritun samninga fyrirtækjanna.

Skýrr býður heildarlausnir á sviði Internetþjónustu, hýsingar og hverskonar gagnatenginga. Starfsemi fyrirtækisins er vottuð samkvæmt ISO 9001-gæðastaðli og uppfyllir strangar kröfur fyrirtækja í dag um góðan uppitíma, öryggi í samskiptum og góða þjónustu. Kerfisleiga Skýrr veitir viðskiptavinum samningsbundna þjónustu gegn áskriftargjaldi á hýsingu, umsýslu og rekstri á hugbúnaði fyrir viðskiptavini í miðlægu tölvuumhverfi, og ábyrgist uppitíma, svartíma og öryggi. Kerfisleiga Skýrr er stærsta og elsta kerfisleiga landsins. Netsjá er nýtt heiti á tölvurekstrarþjónustu Skýrr, sem starfar á sviði rekstrar og uppsetninga á staðarnetum og tölvukerfum viðskiptavina fyrirtækisins.