Prentmet Suðurlands á Selfossi hefur nú fengið vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Starfsfólk Prentmets hefur frá stofnun lagt sig fram við að minnka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar. Prentmet í Reykjavík fékk Svansvottun í júlí 2011 og nú er næsta skref tekið með vottun prentsmiðjunnar á Selfossi. Markmiðin eru skýr, skuldbinding eigenda og stjórnenda fyrirtækisins er augljós og mikill áhugi meðal alls starfsfólks. Prentmet Suðurlands er fyrsta prentsmiðjan utan höfuðborgarsvæðisins til þess að hljóta Svansvottun. Þetta þýðir að æ fleirum gefst tækifæri til að eiga viðskipti við umhverfisvottaða prentsmiðju í sinni heimabyggð.

Þá er Dagskráin, Fréttablað Suðurlands fyrsta héraðsfréttablaðið á landinu til að geta notað Svaninn, norræna umhverfismerkið en það er í eigu Prentmets.

Svansvottun prentsmiðjunnar tryggir að Prentmet Suðurlands er í fremstu röð prentsmiðja hvað varðar lágmörkun neikvæðra áhrifa á umhverfi og heilsu. Svandís Svavarsdóttir umhverfisráðherra afhenti Erni Grétarssyni, prentsmiðjustjóra Prentmets Suðurlands Svansleyfið í húsnæði fyrirtækisins að Eyrarvegi 25 föstudaginn 7. September sl. Í ræðu ráðherra kom fram hve gleðilegt það væri að fleiri fyrirtæki á landsbyggðinni bættust í hóp oddaflugs Svansvottaðra fyrirtækja. Aðrir ræðumenn tóku í sama streng og Ásta Stefánsdóttir, framkvæmdastjóri Sveitarfélagsins Árborgar benti á mikilvægi fyrirmynda í litlum samfélögum, en Prentmet Suðurlands er fyrsta fyrirtækið í Árborg til þess að hljóta Svansvottunina. Prentmet Suðurlands er áttunda íslenska prentsmiðjan sem hlýtur Svansvottun og hlýtur tuttugasta og fyrsta Svansleyfið á Íslandi og bætist því í ört stækkandi hóp Svansmerktra fyrirtækja. Sífellt auðveldara verður fyrir íslenska neytendur að velja umhverfismerkta vöru og þjónustu um land allt en Prentmet Suðurlands er fimmti Svansleyfishafinn utan höfuðborgarsvæðisins. Aðrir eru Undri í Reykjanesbæ, Hótel Rauðaskriða hjá Húsavík, Hótel Eldhestar í Ölfusi og Fjarðarþrif á Eskifirði.

Um Prentmet

Prentmet var stofnað í apríl árið 1992 af hjónunum Guðmundi Ragnari Guðmundssyni og Ingibjörgu Steinunni Ingjaldsdóttur. Í byrjun voru aðeins tveir starfsmenn hjá Prentmeti en fyrirtækið fór þó fljótlega að færa út kvíarnar og starfsfólki fjölgaði ört. Hjá Prentmeti starfa nú tæplega 100 manns á þremur stöðum; í Reykjavík, á Selfossi og á Akranesi. Prentmet býður upp á mikla breidd í prentverki, meðal annars offsetprentun, stafræna prentun, prentun umbúða og bóka. Svansvottun Prentmets nær yfir alla prentþjónustu Prentmets í Reykjavík og nú einnig á Selfossi.

Svansmerking fyrir prentsmiðjur

Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur eru mjög strangar, sérstaklega hvað varðar efnanotkun, sem er þýðingarmesti umhverfisþátturinn í rekstri prentsmiðja en auk þess er:

– Lögð áhersla á notkun umhverfismerkts eða endurunnins pappírs við prentunina.

– Hlutfall úrgangspappírs við framleiðsluna lágmarkaður

– Flokkun úrgangs ásamt réttri meðhöndlun hættulegra efna er tryggð.

– Hvatt til notkunar endurnýjanlegra orkugjafa og lágmörkunar á orkunotkun við framleiðsluna.

– Hvatt til þess að valdar séu umhverfismerktar vörur og þjónusta í innkaupum.

– Gerð er krafa um reglulega þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ferlum til að stýra umhverfisstarfi.

– Tryggt er að fyrirtækið uppfylli öll lög og reglugerðir sem eiga við starfsemina.

Norræna umhverfismerkið Svanurinn

Svanurinn er opinbert umhverfismerki Norðurlandanna sem byggist á óháðri vottun og skilyrðum sem taka tillit til alls lífsferils vöru og þjónustu. Tilgangur Svansins er að ýta undir sjálfbæra þróun samfélagsins svo að komandi kynslóðir hafi jafna möguleika og við til að mæta þörfum sínum. Alls er hægt að votta um 70 mismunandi vöru- og þjónustuflokka.