Um síðustu mánaðarmót ákváðu eigendur Prentmets að breyta nafni Prentverks Akraness í Prentmet Vesturlands og frá sama tíma var nafni fyrirtækisins á Selfossi breytt út Prentsmiðju Suðurlands í Prentmet Suðurlands. Þá er fyrirtækið einnig með starfsemi í Reykjavík við Lyngháls 1. Hjá fyrirtækinu starfa um 130 manns á þessum þremur stöðum. Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir og Guðmundur Ragnar Guðmundsson eru eigendur Prentmets. Ingibjörg, sem er einnig markaðs- og starfsmannastjóri fyrirtækisins svaraði nokkrum spurningum Póstsins vegna nafnabreytinganna.

Nú hafið þið ákveðið að gera nafnabreytingar á fyrirtækjum ykkar á Akranesi og Selfossi, hvað kemur til ?

“Í júlí keyptum við Prentsmiðju Suðurlands sem er um margt líkt fyrirtæki og Prentverk Akraness sem við keyptum í desember 2000. Bæði eiga fyrirtækin góða og langa sögu. Prentmet var stofnað af okkur árið 1992. Prentmet hefur vaxið hratt undanfarin ár og teljum við að sterkara sé að kynna starfsemina undir einu nafni þ.e. Prentmet (Reykjavík), Prentmet Vesturlands og Prentmet Suðurlands. Með nafninu erum við að undirstrika að við erum að bjóða heildarlausnir fyrir okkar viðskiptavini. Einnig viljum við með þessu líta á starfsfólk Prentmets sem eina liðsheild hvort sem það er í Reykjavík, á Akranesi, eða Selfossi og virkja allt tengslanet betur þeirra á milli og upplýsingaflæðið. Starfsfólk býr yfir mismunandi þekkingu og getur miðlað henni sín á milli sem gerir ekkert annað en að efla liðsheildina og þekkinguna á hverjum stað fyrir sig. Við erum öll að vinna að sama markmiði að bjóða hraða, gæði og persónulega þjónustu fyrir okkar viðskiptavini”, sagði Ingibjörg.

Hvað getur þú sagt mér um fyrirtækið á Akranesi og hverskonar þjónustu er Prentmet með þar ?

“Við getum boðið íbúum og fyrirtækjum á Vesturlandi upp á heildarlausnir í prentun þ.e. allt frá nafnspjöldum upp í bækur og umbúðir. Við getum boðið upp á stafræna prentun, offsetprentun og umbúðaprentun með hjálp móðurfyrirtækisins í Reykjavík. Við gefum síðan út auglýsingablaðið Póstinn einu sinni í viku”.

Hvernig hefur ykkur verið tekið á Akranesi og hvernig gengur starfsemin þar ?

“Okkur hefur verið tekið mjög vel á Akranesi. Við höfum byggt fyrirtækið upp markvist með öflugu starfsfólki og sterkum tækjakosti. Einnig höfum við rekið fyrirtækið með sömu viðskiptahugmynd og við höfum alltaf gert með Prentmet og þá leggjum við gríðarlega áherslu á persónulega þjónustu, hraðan vinnslutíma og ekki síst gæði verka”, sagði Ingibjörg.

Eru einhverjar hugmyndir um að efla starfsemina enn frekar á Akranes eða verður fyrirtækið rekið með svipuðu sniði næstu árin ?

“Já, erum alltaf að skoða nýja möguleika. Við höfum það að á leiðarljósi að gera gott betra og vera stöðugt að þróa fyrirtækið að þörfum viðskiptavina okkar. Sjáum fram á að bæta inn tækjum fyrir stafræna prentun o.fl. Einnig að gera Póstinn ennþá meira aðlaðandi með léttum greinum ásamt því að vera með ,,spurningu vikunnar” við fólkið á svæðinu.”sagði Ingibjörg að lokum.

Viðtal: Magnús Hlynur Hreiðarsson.

Myndatexti: Starfsfólk Prentmets Vesturlands, ásamt Ingibjörgu og Guðmundi, talið frá vinstri; Þorleifur Rúnar Örnólfsson, Sigríður Valdimarsdóttir, Sigurvin Sigurjónsson, Karl Örn Karlsson, Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir, Þórður Elíasson og Guðmundur Ragnar Guðmundsson