Prjónablaðið Lopi og band hefur verið endurvakið en það er prentað hjá Prentmet í Reykjavík. Blaðið er einstaklega glæsilegt með fjölmörgum prjónauppskriftum. Ásdís Birgisdóttir og Margrét Linda Gunnlaugsdóttir eru ritstjórar blaðsins. „Tilgangurinn með því að endurvekja Lopa og band, er að bjóða upp á aukna fjölbreytni í íslensku uppskriftaflórunni og kynna þjóðlega hönnun sem tekur mið af tískustraumum bæði hér innanlands og í hátískuheiminum. En hvað er þjóðlegt? Okkar svar við þeirri spurningu er: „með því að nota íslenska ull, hanna flíkur sem henta okkar veðráttu, leita innblásturs í fatnaði fyrri alda og að útfæra svipmót okkar fögru náttúru í flíkur“, sagði Ásdís í samtali við blaðið. Hún og Margrét Linda eru báðar menntaðar úr Textíldeild Myndlista- og handíðaskólans og hafa starfað við hönnun síðan. Linda er að auki þjóðfræðingur frá Háskóla Íslands og Ásdís hefur starfað við stjórnunarstörf hjá Heimilisiðnaðarfélagi Íslands og Textílsetri Íslands samhliða hönnunarstörfum.
2-3 blöð árið 2012
„Prjónablaðið Lopi og band lagðist af 1997, en er endurvakið nú í okkar eigu 14 árum síðar. Á þeim tíma sem blaðið lagðist af naut prjón minni vinsælda en nú og fögnum við sannarlega breyttum tímum. Fyrir rúmu ári síðan ákváðum við að láta slag standa og kom fyrsta tölublað út í byrjun ágúst. Annað tölublað, ungbarnablað fyrir börn 0-2 ára, kom út um miðjan desember“, sagði Ásdís ennfremur. Þær stöllur stefna á 2-3 blöð á þessu ári. Þær hanna sjálfar flestar flíkurnar í blaðinu en stefna að því að geta verið í samstarfi við aðra prjónahönnuði í framtíðinni. „Við leggjum mikla áherslu á að vinna úr íslensku hráefni, en að sjálfsögðu notum við aðrar garntegundir enda mikið framleitt af vönduðu garni úr náttúrulegum efnum“, sagði Ásdís að lokum.
MHH
Lopi og band 1: Ritstjórar Lopa og bands, Ásdís Birgisdóttir (t.v.) og Margrét Linda. Heimasíða þeirra er www.lopiogband.is og þær eru líka á Facebook. Næsta blað þeirra kemur út í maí.
Lopi og band 2: Forsíða ungbarnablaðsins, sem kom út sl. haust. Blaðið er prentað hjá Prentmet, Lynghálsi 1, Reykjavík eins og önnur blöð Lopa og bands.
Lopi og band 3: Tvö módel í ullarpeysum frá Lopa og bandi.
Lopi og band 4: Gullfalleg peysa úr smiðju Lopa og bands.