Prentmet hélt sína árlegu sumar- og fjölskylduhátíð í

Miðdal helgina 13.-15. júní sl. Margt var um manninn og fjölmennast á laugardeginum 14. júní, ca. 130 manns með börnum.

Dagurinn byrjaði á því að setja upp samkomutjald og síðan var farið í Latabæjarleikfimi með börnunum. Farið var í ýmsa leiki og þrautir eins og pokahlaup, reiptog og blöðrukeppni. Rúnar Gunnarsson sölufulltrúi átti flest metin í pokahlaupinu og stefnir hann á alþjóðlega keppni í Ástralíu í kengúruhoppi. Baráttan var mikil í öllu liðinu og það urðu sem betur fer bara lítilsháttar meiðsli á nokkrum þetta árið.

Veðurguðirnir voru okkur nokkuð hliðhollir og við fyrirgáfum þeim alveg þótt þeir helltu stundum yfir okkur vatni eins og þegar borðhaldið fór fram. Annars var yfirleitt þurrt og milt veður.

Efnilegir sölumannshæfileikar komu í ljós í ferðinni hjá nokkrum dætrum starfsmanna sem afgreiddu gos og sælgæti út um glugga á Prentmets-sendibílnum.

Emil bókbindari týndi yngsta barninu sínu og eftir dauðaleit fannst barnið steinsofandi í húsbíl hjá Siggu setjara. Drengurinn hafði þvælst í heimsókn til Siggu með nokkrum börnum til þess að sjá lítinn hvolp og sofnaði í sófa þar og lá þar eins og púði og enginn vissi af honum þegar hin börnin fóru burt.

Guðmundur Ragnarsson, kokkur á Laugaási, sá um matinn um kvöldið ásamt Ragnari syni sínum. Var maturinn mjög ljúffengur og góður að vanda hjá þeim feðgum.
Hljómsveit Ólafs Bauks (hljómsveit Prentmets) hélt síðan uppi stuði um kvöldið og ungir sem aldnir stigu trylltan dans.
Ferðin var að allra mati mjög skemmtileg og stemmningin mjög góð.