Eigendur Prentmets og prentsmiðjustjóri í Vesturlandsútibúi taka við umhverfisvottun SvansinsPrentmet Vesturlands á Akranesi hefur nú fengið vottun Norræna umhverfismerkisins Svansins til staðfestingar á góðum árangri í umhverfismálum. Í hófi sl. föstudag afhenti Kristín Linda Árnadóttir, forstjóri Umhverfisstofnunar, Þórði Elíassyni, prentsmiðjustjóra Svansleyfið. Auk Kristínar Lindu tóku til máls Þórður Elíasson prentsmiðjustjóri, Jón Pálmi Pálsson bæjarstjóri á Akranesi og eigendur Prentmets, hjónin Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir og Guðmundur Ragnar Guðmundsson.
 
Prentsmiðjan á Akranesi var stofnuð árið 1942 og hét þá Prentverk Akraness. Prentmet tók við rekstrinum í desember árið 2000 og fékk fyrirtækið þá nafnið Prentmet Vesturlands. Svanurinn er því kærkomin gjöf á 70 ára afmælisárinu.
 
Prentmet Vesturlands á Akranesi er fyrsta fyrirtækið á Vesturlandi til þess að hljóta Svansvottunina og önnur prentsmiðjan utan höfuðborgarsvæðisins, næst á eftir Prentmeti Suðurlands á Selfossi. Prentmet í Reykjavík fékk Svansvottun í júlí 2011. Starfsfólk Prentmets hefur frá stofnun fyrirtækisins lagt sig fram við að lágmarka neikvæð umhverfisáhrif starfseminnar.

Auglýsingablaðið Pósturinn, sem Prentmet Vesturlands gefur út, er fyrsta auglýsingablaðið á landsbyggðinni sem hefur leyfi til þess að nota Svaninn, norræna umhverfismerkið.

Svansmerking fyrir prentsmiðjur

Kröfur Svansins fyrir prentsmiðjur eru mjög strangar, sérstaklega hvað varðar efnanotkun, sem er þýðingarmesti umhverfisþátturinn í rekstri prentsmiðja en auk þess er:
– Lögð áhersla á notkun umhverfismerkts eða endurunnins pappírs við prentunina.
– Hlutfall úrgangspappírs við framleiðsluna lágmarkaður
– Flokkun úrgangs ásamt réttri meðhöndlun hættulegra efna er tryggð.
– Hvatt til notkunar endurnýjanlegra orkugjafa og lágmörkunar á orkunotkun við framleiðsluna.
– Hvatt til þess að valdar séu umhverfismerktar vörur og þjónusta í innkaupum.
– Gerð er krafa um reglulega þjálfun og fræðslu starfsmanna ásamt ferlum til að stýra umhverfisstarfi.
– Tryggt er að fyrirtækið uppfylli öll lög og reglugerðir sem eiga við starfsemina.

 

 

Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir heldur ræðu við móttöku Svansvottunar Þórður prentsmiðjustjóri tekur við umhverfisvottun Svansins Eigendur Prentmets, prentsmiðjustjóri á Vesturlandi og fulltrúi Umhverfisstofnunar Starfsfólk Prentmets ásamt Kristínu Lindu Árnadóttur og Önnu Sigurveigu Ragnarsdóttur frá Umhverfisstofnun.