Stjórn Íslensku gæðaverðlaunanna hefur boðið Prentmet að taka þátt í matsferli verðlaunanna. Prentmet er valið þar sem fjölmargir stjórnendur íslenskra fyrirtækja telja Prentmet til fyrirmyndar í rekstri.

Íslensku gæðaverðlaunin eru veitt fyrir framúrskarandi árangur í rekstri fyrirtækja. Verðalunahafi er valinn á grundvelli líkans sem þróað var af European Foundation for Quality Management (EFQM) til að mæla árangur fyrirtækja í níu lykilþáttum sem eru m.a. stefnumörkun, stjórnun, ánægja viðskiptavina og starfsmanna. EFQM líkanið er grunnar að Evrópsku gæðaverðlaununum og sambærilegum gæðaverðlaunum í vel flestum löndum Evrópu.

Með þáttöku í matsferlinu öðlast Prentmet ekki einungis möguleika á að hljóta Íslensku gæðaverðlaunin heldur er sú vinna sem farið er í gegnum mjög gagnleg fyrirtækinu til að meta eigin árangur. Þátttakendur meta stöðu sína á grundvelli EFQM líkansins, en niðurstaða þess mats er góður grundvöllur til að byggja á í vinnu við stefnumörkun og nýja sókn til framtíðar.

Nýlega var gerð könnun meðal tæplega 500 stjórnenda íslenskra fyrirtækja. Hver stjórnandi var beðinn um að nefna þrjú stór fyrirtæki, þrjú lítil eða meðalstór og þrjár stofnanir sem þeir töldu vera öðrum til fyrirmyndar. Prentmet var meðal þeirra 10 fyrirtækja sem oftast voru nefnd. Það er af þessum ástæðum sem Prentmet hefur verið valið til að taka þátt í matsferli Íslensku gæðaverðlaunanna.

Stjórnvísi (áður Gæðastjórnunarfélagið) hefur haft umsjón með íslensku gæðaverðlaununum. Í stjórn eru Ari Edwald, Ari Arnalds, Ingjaldur Hannibalsson, Ólafur Davíðsson og Þorkell Sigurlaugsson.