Til þess að ná þessum markmiðum mun fyrirtækið leitast við að ráða hæft starfsfólk sem er tilbúið að veita persónulega og hraða þjónustu.

Það er stefna Prentmets að vinnuandi sé jákvæður, starfsfólk búi við öryggi og góðan aðbúnað á vinnustað og að jafnréttis sé gætt. Starfsfólk fái þjálfun til að viðhalda og auka hæfni. Reynt er að tryggja stöðugan starfskraft með því að leggja upp úr því að starfsfólki líði vel og það vinni vel og samskipti þess séu jákvæð.

Vinnuaðstaða starfsfólks skal vera góð.

Hver starfsmaður skal hafa skriflega lýsingu á starfi sínu. Með því veit hann hvað fyrirtækið ætlast til af honum og hvað sé ætlast til af öðrum starfsmönnum. Allar starfslýsingar grundvallast af því að starfsfólk og stjórnendur hjálpist að til að vinna að sameiginlegum markmiðum fyrirtækisins.

Reynt er að gefa starfsfólki möguleika á að þroskast í starfi í samræmi við eigin óskir og hæfileika. Starfsfólk fær tækifæri til að sækja námskeið eftir þörf fyrirtækisins. Þekking er undirstaða framþróunar og velmegunar.

Markvisst er unnið að miðlun þekkingar í starfi. Allir fastráðnir starfsmenn Prentmets sæki Prentmetsskólann. Með honum miðlum við þekkingu á milli starfsfólks, aukum ánægju, stuðlum að aukinni virðingu fyrir störfum innbyrðis og veitum innsýn í verkefni samstarfsfólksins.

Starfsmannamarkmið

  • Að ráða yfir hæfu áhugasömu og traustu starfsfólki í samræmi við starfssvið fyrirtækisins.
  • Að reyna eftir fremsta megni að standa við gefin loforð. Væntingar viðskiptavinarins verða að standa.
  • Ánægður viðskiptavinur er besta auglýsingin.
  • Að leggja upp úr því að starfsfólki líði vel og það vinni vel og tryggja því góða vinnuaðstöðu.
  • Að stuðla að góðri samvinnu milli starfsfólks. Starfsfólk vinni sem ein góð liðsheild.

Markmið Prentmetsskólans

  • Að upplýsa starfsmenn um starfsemi, umhverfi, þjónustu og framleiðslu fyrirtækisins.
  • Að starfsmaður fái svör við 15 mikilvægustu spurningum í hverri deild fyrir sig.
  • Að starfsmaður geti orðið almennt góður í að kynna fyrirtækið.

Hvað stendur M E T fyrir í Prentmetsskólanum?

  • M – Menntun –Miðlun þekkingar – Metnaður.
  • E  – Endurmenntun – Endurgjöf.
  • T  – Taktur við tímann í þekkingu og þjónustu – Tækni – Tækifæri til að þroskast og þróast.

Það skal tryggt að starfsmenn fái næga þjálfun í starfi sínu þannig að öllum kröfum gæðakerfis sé fullnægt og að engum starfsmanni sé falið verkefni fyrr en hann hefur til þess næga þjálfun.

Prentmet mun stuðla að því að starfsfólk fái laun í samræmi við þær kröfur sem starfið setur, auk þess sem tillit sé tekið til árangurs, ábyrgðar og menntunar viðkomandi. Ekki er gert upp á milli kynja eða aldurshópa við ráðningu til starfa eða við ákvörðun launa og kjara.

Starfsfólk skal vera vel upplýst um starf sitt og starfsemi fyrirtækisins. Þegar starfsmaður hefur störf hjá Prentmet, fær hann starfsmannahandbók sem er bæði upplýsingabók um fyrirtækið og starfsemi þess og gæðahandbók.

Starfsmannafundir

Haldnir eru starfsmannafundir reglulega og makmiðið með þeim eftirfarandi:

  • Að bæta samskiptin á vinnustað.
  • Að auðga fyrirtækið með góðum hugmyndum frá starfsfólki.
  • Að upplýsa starfsfólk um hvað sé framundan.
  • Að kanna viðhorf starfsfólks til ákvarðana sem snerta það og fyrirtækið.

Starfsmaður fær einu sinni á ári formlegt starfsmannaviðtal. Með þessu samtali er unnið að því að starfsfólkið sé ánægt og áhugasamt og vinni eins gott starf og unnt er.

Starfsmenn eru styrktir til íþróttaiðkunar. Boðið er upp á fyrirlestra um heilsu og hollustu og líkamsræktarkort eru niðurgreidd. Góð heilsa starfsmanna stuðlar að vellíðan og velgengi þeirra í starfi.

Lagt er upp úr því að starfsfólk kynnist einnig við aðrar aðstæður en í vinnunni og eigi góða stund saman. Starfsfólki, mökum og börnum er boðið í sumarferð/fjölskyldudag. Starfsmannafélag Prentmets var stofnað 2001 og styrkir Prentmet starfsemi þess með fjárhæð sem nemur hálfu gjaldi starfsmanns í félagið, á móti mun starfsmannafélagið sjá um að halda árshátíð og jólahlaðborð árlega.

Samantekt:

Starfsmannastefna Prentmets tekur mið af:

  • Persónulegri þjónustu fagfólks sem stendur við gefin loforð.
  • Að starfsfólki líði vel og það vinni vel.
  • Sterkri liðsheild og jákvæðri ímynd.