Á þessu ári eru liðin tíu ár frá stofnun Prentmets. Af því tilefni var haldin veisla á Broadway 18. október. Einnig var haldið upp á afmæli dótturfyrirtækjanna Fjölritunarstofu Daníels, sem er 75 ára, og Prentverks Akraness, sem er 60 ára. Afmælisveislan þótti mjög „grand“ og glæsileg í alla staði og afskaplega skemmtileg. Yfir 400 gestir, sem voru bæði viðskiptavinir Prentmets, starfsfólk og velunnarar, mættu til þess að fagna þessum tímamótum. Boðið var upp á léttvín og spænska smárétti. Ari Jónsson, söngvari og prentari hjá Prentmet, söng ljúfum tónum. Örn Árnason leikari var veislustjóri og fór á kostum við mikinn fögnuð veislugesta. Saga Prentmets var sýnd á glæsilegu myndbandi sem fyrirtækið PRO-PR tók saman og Sigursteinn Másson talaði inn á. Árni Tryggvason leikari og Skapti Ólafsson fluttu lag sem þeir höfðu sungið saman fyrir 50 árum. Þarna fléttaðist saman gamli og nýi tíminn á skemmtilegan og eftirminnilegan hátt. Hljómsveit Ólafs Bauks, sem er hljómsveit Prentmets, tók nokkur rokkuð stuðlög. Eftir kl. 10 var haldið í salinn Ásbyrgi. Þar hélt Ari Jónsson uppi góðu stuði og var trallað og tjúttað fram á nótt. Það voru glaðir veislugestir sem héldu heim eftir vel heppnaða afmælisveislu.