Einelti er mikið böl fyrir samfélagið og því er mikilvægt að taka á því vandamáli strax því að það getur haft hræðilegar afleiðingar fyrir þann sem verður fyrir því og einnig eru gerendur þess líklegri en aðrir nemendur til þess að lenda í glæpum og vímuefnaneyslu í framtíðinni. Prentmet hefur gefið út bókina Ýma tröllastelpa ,,Ég vil fá að vera ég sjálf“ frá árinu 2003 og gefið öllum 6 ára börnum á landinu. Nú ættu allir fyrstu bekkingar grunnskóla landsins að vera komnir með bókina í hendurnar. Prentmet hefur verið í samstarfi við Olweusarverkefnið gegn einelti og samtökin Regnbogabörn. Tilgangurinnn með verkefninu er fyrst og fremst að vekja alla til umhugsunar um hve mikilvægt það er að öll börn þori að vera – og geti verið – þau sjálf. Einnig að þau njóti sín í leik og starfi á eigin forsendum. Börn eru ólík eins og litirnir í regnboganum eru ólíkir en geta þó alltaf verið saman. Höfundur bókarinnar er Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir annar eigandi og starfandi stjórnarformaður Prentmets. Æskilegt er að bæði foreldrar og skóli vinni sameiginlega með þetta verkefni svo það skili sér sem best inn til barnanna.

Kannanir hafa sýnt að efnið nýtist vel í kennslustundum eins og lífsleikni og á bekkjarfundum. Eineltishringurinn er mikið notaður í umræðunni um Ýmu. Efnið hjálpar nemendum að setja sig í spor annarra og er gott umræðuefni um líðan í bekknum, gott viðfangsefni um fjölmenningu og vel til þess fallið að ræða það að engir tveir eru eins. Þá er bókin ævintýri og hægt er að lita og vinna með hana.

Við sem erum fullorðin berum mikla ábyrgð á velferð barnanna. Umræðan í bekknum um Ýmu vonum við að styrki kennara til að axla betur þá ábyrgð. Ýma er einskonar tákngervingur fyrir markmið og tilgang þeirra sem berjast gegn einelti. Hún fer aðeins fram á að vera hún sjálf, sama hvað aðrir segja um hana. Aðferðafræði Ýmuverkefnisins og Olweusarverkefnisins á erindi alstaðar í samfélaginu bæði í skólakerfinu öllu ásamt vinnustöðum. Okkur öllum þarf að líða vel í umhverfi okkar svo að við náum að blómstra og sýna sem mestan árangur í leik og starfi.