Nú hefur Prentmet lagt enn einn hornsteininn í verkefnið Ýmu Tröllastelpu með því að gefa út og dreifa geisladisk með lagi um Ýmu. Það er Ólafía Hrönn Jónsdóttir leikkona sem syngur og Jón Ólafsson hljóðsetti, textinn er eftir Ólafíu Hrönn og Davíð Þór Jónsson. Allir nemendur á yngri árum ásamt foreldrum þeirra ættu að kannast við Ýmu tröllastelpu þar sem Prentmet hefur frá því árið 2001 gefið út og dreift bókinni á alla nemendur yngstu sviða.

Bókin er að öllu leyti hönnuð og prentuð hjá Prentmet og umfjöllunarefnið er einelti og forvarnir gegn þeim. Með því vill fyrirtækið leggja sitt af mörkum til þess að draga úr því ofbeldi sem einelti er. Ýma hefur það hlutverk að gera eitthvað gott fyrir börnin og vera samfélaginu til heilla. Regnbogabörn og Prentmet standa saman fyrir þessu átaki og hafa einsett sér að sjá til þess að hvert einasta 6 ára skólabarn á landinu og kennarar þeirra fái þessa bók afhenta í byrjun skólaárs 2006-2007. Verkefnið styrkir vel við bakið á Regnbogabörnum sem hafa undanfarin ár lagt mikið kapp á að uppfræða börn og foreldra um einelti og afleiðingar þess.

Myndirnar eru teiknaðar af teiknimyndastúdíóinu Iceland Animations og höfundur bókarinnar er Ingibjörg Steinunn Ingjaldsdóttir sem er starfsmanna- og markaðsstjóri Prentmets ásamt því að vera annar eigenda.

Leikkonan Ólafía Hrönn Jónsdóttir hefur leikið Ýmu og tekið saman 30 mínútna leikþátt um þetta efni. Halldóra Geirharðsdóttir fer með aukahlutverkin. Leiksýningin er bæði skemmtun fyrir börnin og hefur mikið forvarnargildi fyrir þau. Mjög góður rómur hefur verið gerður að leiksýningunni og er tekið við fyrirspurnum og pöntunum í síma 5450100 , á netfangi jonpall@regnbogaborn.is eða hjá Halldóru Geirharðs, dorawond@mi.is

Hægt er að hlusta með því að velja neðangreindan hlekk:

Ýma tröllastelpa